GLEÐILEGT NÝTT ÁR.

Það hefur ætíð verið siður hjá fólki að líta yfir farinn veg og gera  gamla árið upp á þessum tímamótum. Ég hef alla tíð verið fámall um það sem liðið er og það þarf ansi sterka karaktera til að fá mig til að ræða um það liðna,  hvað var gert gott eða hvað var gert slæmt.

Þetta ár var bæði gott og slæmt, það er líka bara gangur lífsins.  Stærsta málið er hvernig maður sjálfur kemur undan góðum og slæmum hlutum.

Árið 2009 var fljótt að líða, það var mjög viðburðarríkt hjá mér og ég fékk að sjá hluti sem ég vildi ekki sjá og ég fékk að sjá hluti sem ég ætlaði mér að sjá. Hraðinn var mikill, það hefur bara alltaf verið þannig í kringum mig að hlutirnir gerast hratt hvort sem um er að ræða góða eða slæma hluti. 

Þessi ofboðslegi hraði er búinn að vera mikið lengur í gangi en bara síðasliðið ár, fyrir ca 3 mánuðum síðan ákvað ég að slá af bensíngjöfinni,  það sem gerist þá er einfaldlega það að maður fer hægar yfir og á smá tíma og með smá hjálp hef ég vanist því og fengið að sjá að það fer betur með mig.

Þegar hraðinn er mikill þá nær maður ekki að sjá allt og það skiftir mann bara engu máli að maður heldur, en maður gleymir því að þegar maður er á mikilli ferð er líka erfitt að sjá mann sjálfann og það er bara þannig að sumt fólk vill sjá mann meira og betur.

Ég hef aldrei að ég held strengt svokölluð áramótaheit, þau eru ekki fyrir mig.  En á miðju síðasta ári hét ég því við góðann vin minn að ég ætlaði að eyða öllum síðasta degi ársins með börnunum,  hverri einustu mínutu dagsins. Í dag áttum við börnin frábærann dag upp við Rauðavatn og eyddum svo seinnipartinum í heitum kakó bolla áður en björgunarsveitin var heimsótt og styrkt. 

Mér tókst að láta eitthvað standast sem var löngu fyrirfram ákveðið. þetta sýndi mér að  skemmtilegustu hlutunum er auðveldast að framfylgja.

Ég veit ekki hvað ég tapaði miklum peningum 2009, hvað lánin hækkuðu mikið, hvað ég borgaði mikla vexti eða hvað húsið mitt féll mikið í verði. En ég veit hvað húsið mitt geymir og með því byrjar nýr dagur, nýtt ár.

Hvernig þetta ár svo endar látum við bara ráðast í rólegheitunum.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Páll Jóhannesson

Ágæti bloggvinur og félagi. Haltu áfram að njóta hverra mínútu með börnunum þínum. Ég var sjómaður í u.þ.þ 20 ár og má með sanni segja að ég hafi misst af mörgum árum í uppeldi barna minna. Eftir að ég kom í land hef ég svo sannarlega áttað mig á mikilvægi þess að fjölskyldan sé sem mest saman. Í dag nýt ég þeirra forréttinda að vera orðin afi 4 barna og þar reyni ég að bæta sjálfum mér upp þann tíma sem ég missti af.

Áramótaheit - settu þér aftur svona einfalt heit sem auðvelt er að standa við og sama hvernig allt annað fer þá getur þú verið viss um að árið verður gott ef þú ræktar sambandið við fjölskylduna.

Gleðilegt nýtt ár og megi nýja árið verða þér og fjölskyldu þinni gæfuríkt á alla lund. 

Palli Jóh

Páll Jóhannesson, 1.1.2010 kl. 12:56

2 Smámynd: S. Lúther Gestsson

Palli,  maður er að detta í fertugt í þessum mánuði. Er ekki allt fertugum fært?

S. Lúther Gestsson, 3.1.2010 kl. 20:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband